Alþingi

Valmynd


Hlusta


Lagasafn.  Íslensk lög 1. september 2025.  Útgáfa 156b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk

2011 nr. 88 23. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2011. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 59/2012 (tóku gildi 1. okt. 2012). L. 84/2015 (tóku gildi 1. jan. 2016). L. 115/2015 (tóku gildi 16. des. 2015). L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016). L. 90/2018 (tóku gildi 15. júlí 2018; EES-samningurinn: XI. viðauki reglugerð 2016/679). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 88/2021 (tóku gildi 1. jan. 2022). L. 78/2022 (tóku gildi 14. júlí 2022). L. 83/2024 (tóku gildi 1. jan. 2025). L. 88/2024 (tóku gildi 1. maí 2025 nema brbákv. I og III sem tóku gildi 11. júlí 2024; i–l-liður 1. tölul. 12. gr. og brbákv. II tóku gildi 1. jan. 2025, sbr. l. 138/2024). L. 48/2025 (tóku gildi 22. júlí 2025).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og húsnæðismálaráðherra eða félags- og húsnæðismálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið og markmið.
[Lög þessi gilda um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.] 1)
Ákvæði IV. kafla gilda einnig um réttindagæslu einstaklinga sem vegna afleiðinga viðvarandi sjúkdóms eða slyss þurfa stuðning við undirbúning upplýstrar ákvörðunar um persónuleg málefni eða aðstoð við að leita réttar síns hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.
[Markmið laga þessara er að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.] 1)
Við framkvæmd laga þessara skal taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
    1)L. 59/2012, 1. gr.
2. gr. Yfirstjórn.
[Ráðherra skal hafa yfirstjórn með réttindum fatlaðs fólks.] 1)
    1)L. 88/2024, 12. gr.

II. kafli. [Réttindavakt ráðuneytisins.]1)
    1)L. 126/2011, 549. gr.
3. gr.
[Ráðuneytið … 1) skal koma á fót sérstakri réttindavakt innan þess.] 2)
Hlutverk réttindavaktarinnar er að:
    a. … 1)
    b. safna upplýsingum um réttindamál fatlaðs fólks og þróun í hugmyndafræði og þjónustu við fatlað fólk og koma á framfæri ábendingum um það sem betur má fara,
    c. bera ábyrgð á fræðslu- og upplýsingastarfi, í samvinnu og samráði við [hagsmunasamtök fatlaðs fólks], 3) varðandi réttindi fatlaðs fólks, svo sem fyrir hina fötluðu einstaklinga, réttindagæslumenn fatlaðs fólks, talsmenn þeirra, aðstandendur, starfsfólk og þjónustuaðila,
    d. fylgjast með nýjungum á sviði hugmyndafræði og þjónustu við fatlað fólk sem kunna að leiða til betri þjónustu og aukinna lífsgæða fyrir fatlað fólk,
    e. annast útgáfu á auðlesnu efni og bæklingum um réttindi fatlaðs fólks,
    f. bera ábyrgð á fræðslu- og upplýsingastarfi í samvinnu og samráði við [hagsmunasamtök fatlaðs fólks] 3) til að upplýsa almenning um réttindi fatlaðs fólks, vinna gegn staðalímyndum og fordómum og auka vitund um getu og framlag fatlaðs fólks.
    1)L. 88/2024, 12. gr. 2)L. 126/2011, 549. gr. 3)L. 115/2015, 16. gr.

III. kafli. Réttindagæslumenn fatlaðs fólks.
4. gr.
[Réttindagæslumenn fatlaðs fólks starfa innan Mannréttindastofnunar Íslands. Um ráðningu og hæfisskilyrði þeirra fer eftir lögum um Mannréttindastofnun Íslands.] 1)
… 1)
    1)L. 88/2024, 12. gr.
5. gr.
[Réttindagæslumenn skulu fylgjast með mannréttindum fatlaðs fólks og veita því viðeigandi stuðning við réttindagæslu hvers konar hvort sem það er varðandi þjónustu sem það á rétt á eða varðandi önnur réttindi.] 1)
Búi hinn fatlaði einstaklingur á heimili fyrir fatlað fólk skal forstöðumaður viðkomandi heimilis veita réttindagæslumanni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar vegna starfs síns. Þegar um er að ræða upplýsingar sem varða persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða einstaklings skal leita eftir samþykki hans og persónulegs talsmanns hans, sbr. IV. kafla, sé slíkur talsmaður til staðar.
    1)L. 88/2024, 12. gr.
6. gr.
Öllum er skylt að tilkynna til réttindagæslumanns ef þeir hafa ástæðu til að ætla að brotið sé á rétti fatlaðs einstaklings. Aðstandendur fatlaðs einstaklings, persónulegur talsmaður, þjónustuaðilar, samtök fatlaðs fólks og aðrir sem vegna stöðu sinnar, tengsla eða starfa verða varir við að réttur fatlaðs einstaklings er fyrir borð borinn skulu tilkynna það réttindagæslumanni. Fatlaður einstaklingur, sem telur að réttur hans sé fyrir borð borinn, getur tilkynnt það réttindagæslumanni … 1). Réttindagæslumaður skal [leiðbeina hinum fatlaða einstaklingi, veita honum nauðsynlegan stuðning eftir þörfum] 1) og kanna málið að höfðu samráði við hann. Réttindagæslumaður getur einnig hvenær sem er tekið upp mál að eigin frumkvæði. Komist réttindagæslumaður að þeirri niðurstöðu að réttur fatlaðs einstaklings hafi verið fyrir borð borinn [veitir réttindagæslumaður hinum fatlaða einstaklingi leiðbeiningar og aðstoðar hann eftir þörfum miðað við] 1) óskir hins fatlaða einstaklings.
[Réttindagæslumaður getur, telji hann málið þess eðlis, komið ábendingum um úrbætur á framfæri við hlutaðeigandi aðila og gefið honum frest til að verða við ábendingunum. Verði ekki orðið við ábendingum réttindagæslumanns skal hann eftir atvikum leiðbeina hinum fatlaða einstaklingi um innlendar og alþjóðlegar kvörtunar- og kæruleiðir og veita viðeigandi stuðning eftir þörfum.] 1)
Réttindagæslumaður skal meta í hverju tilviki fyrir sig, í samráði við hinn fatlaða einstakling, hvort rétt sé að [beina ábendingu til [viðeigandi aðila] 2)]. 3)
[[Réttindagæslumaður tekur ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga, en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum.] 4)
Réttindagæslumaður endurskoðar ekki ákvarðanir stjórnvalda í einstökum málum.] 1)
… 4)
    1)L. 83/2024, 1. gr. 2)L. 88/2024, 12. gr. 3)L. 88/2021, 25. gr. 4)L. 48/2025, 1. gr.

IV. kafli. Persónulegir talsmenn fatlaðs fólks.
7. gr.
[Fatlaður einstaklingur sem á vegna fötlunar sinnar erfitt með að gæta hagsmuna sinna skal eiga rétt á persónulegum talsmanni. Fatlaður einstaklingur velur sér talsmann í samráði við sýslumann. Eftir atvikum skal hafa samráð við nánustu aðstandendur, svo sem ættingja, vini eða þjónustuveitendur, leiki vafi á vilja hins fatlaða einstaklings í þeim efnum. Hinn fatlaði einstaklingur og persónulegur talsmaður hans skulu undirrita samkomulag um aðstoðina sem mælir fyrir um heimildir talsmanns skv. 1. mgr. 9. gr. Samkomulagið skal ekki fara gegn lögum og/eða góðu siðferði. Geti hinn fatlaði einstaklingur ekki undirritað samkomulagið er heimilt að víkja frá skilyrði um undirritun en þá skal samkomulag gert að sýslumanni viðstöddum og eftir reglum sem nánar skal kveðið á um í reglugerð. Samkomulagið skal borið undir sýslumann til staðfestingar á vali á talsmanni og efni samkomulagsins. Sýslumaður skal varðveita samkomulagið.] 1)
Persónulegur talsmaður skal búa yfir þekkingu á persónulegum þörfum og áhugamálum þess einstaklings sem hann aðstoðar. [Persónulegur talsmaður skal vera lögráða og varði samkomulag ráðstöfun fjármuna skal hann einnig vera fjár síns ráðandi. Hafi hann hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla, XXVI. kafla, 211. eða 218. gr. almennra hegningarlaga skal sýslumaður meta hvort hann sé hæfur til að verða persónulegur talsmaður. Við undirritun samkomulags skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild sýslumanns til að afla upplýsinga úr sakaskrá.] 2) Persónulegur talsmaður skal fá fræðslu um innihald og áherslur í starfi sínu. Ráðuneytinu er heimilt að gera samning við hagsmunasamtök fatlaðs fólks um milligöngu um að útvega persónulega talsmenn og annast fræðslu þeirra. Starf persónulegra talsmanna er ólaunað en [heimilt er að endurgreiða persónulegum talsmanni nauðsynlegan] 2) kostnað sem sannanlega fellur til vegna starfa hans í þágu hins fatlaða einstaklings. [Útlagður kostnaður skal að jafnaði greiddur af hinum fatlaða einstaklingi. Sýslumaður getur þó ákveðið að hann skuli greiddur úr ríkissjóði ef eignir hins fatlaða einstaklings eru litlar eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því.] 2)
Allar ráðstafanir persónulegs talsmanns skulu gerðar í samráði við og með samþykki hins fatlaða einstaklings og einvörðungu [í samræmi við vilja og óskir viðkomandi]. 2)
    1)L. 88/2024, 12. gr. 2)L. 83/2024, 2. gr.
8. gr.
[Sýslumaður skal hafa eftirlit með framkvæmd samkomulags milli fatlaðs einstaklings og persónulegs talsmanns og halda skrá um persónulega talsmenn.
Hinn fatlaði einstaklingur getur hvenær sem er afturkallað umboð persónulegs talsmanns og skal sýslumaður aðstoða hann við það óski hann eftir því. Sýslumaður skal afturkalla umboð persónulegs talsmanns komi fram ósk þess efnis frá öðrum hvorum eða báðum aðilum samkomulagsins. Jafnframt getur sýslumaður afturkallað slíkt umboð ef beiðni berst þar um frá lögráðamanni. Sýslumaður getur einnig afturkallað umboð persónulegs talsmanns telji hann viðkomandi ekki gegna skyldum sínum gagnvart hinum fatlaða einstaklingi eða uppfylli hann ekki lengur skilyrði skv. 2. mgr. 7. gr.] 1)
    1)L. 88/2024, 12. gr.
[8. gr. a.
Persónulegur talsmaður skal ár hvert gefa sýslumanni skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um framkvæmd samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. Skal þar gerð grein fyrir þeirri aðstoð sem persónulegur talsmaður veitti hinum fatlaða einstaklingi á fyrra ári. Nái samkomulag til aðstoðar við ráðstöfun fjármuna vegna daglegra útgjalda skv. 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. skal sérstaklega gerð grein fyrir þeirri aðstoð með gögnum og skýringum um útgjöld.
Sýslumaður hefur heimild til að krefja persónulegan talsmann um frekari skýringar og/eða gögn um aðstoð sem persónulegur talsmaður hefur veitt á grundvelli samkomulags og eru sýslumanni nauðsynleg vegna eftirlits með samkomulaginu og er persónulegum talsmanni skylt að verða við því. Sýslumaður hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum og gögnum frá hinum fatlaða einstaklingi og þjónustuveitendum, svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga, réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og fjármálafyrirtækjum ef samkomulag tekur til ráðstöfunar fjármuna, sem varða framkvæmd samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. og nauðsynlegar eru til að hann geti sinnt eftirliti sínu.
Persónulegur talsmaður skal gera sýslumanni grein fyrir aðstoð sinni hvenær sem hann krefst þess.
Þegar persónulegur talsmaður lætur af hlutverki sínu skal hann gefa sýslumanni skýrslu, á eyðublaði sem hann leggur til, um framkvæmd samkomulagsins, sbr. 1. mgr.
Þjóðskjalavörður tekur ákvörðun um förgun þeirra gagna sem verða til við eftirlit sýslumanns skv. 1.–4. mgr. í samræmi við lög um opinber skjalasöfn.
Ráðherra setur nánari reglur um skýrslugjöf samkvæmt þessari grein í reglugerð.] 1)
    1)L. 83/2024, 3. gr.
9. gr.
Persónulegur talsmaður aðstoðar fatlaðan einstakling á grundvelli samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og þá einkum við eftirfarandi:
    1. Að gæta réttar síns. Persónulegur talsmaður styður hinn fatlaða einstakling við undirbúning upplýstrar ákvörðunar um málefni sem varða hann. Skal persónulegur talsmaður vera hinum fatlaða einstaklingi til aðstoðar, m.a. þegar ákvarðanir eru teknar um þá þjónustu sem hinn fatlaði einstaklingur nýtur eða á rétt á. Sé persónulegur talsmaður fatlaðs einstaklings til staðar er þjónustuveitanda skylt að kalla hann til þegar til stendur að gera verulegar breytingar á þjónustunni.
    2. Persónuleg málefni hins fatlaða einstaklings. Persónulegur talsmaður er hinum fatlaða einstaklingi innan handar varðandi persónuleg málefni og styður hann við undirbúning upplýstrar ákvörðunar, svo sem um meðferð heilbrigðisstarfsmanna, val á búsetu, atvinnu, tómstundum, o.fl. Persónulegur talsmaður skal skoða heildrænt hvort hinn fatlaði einstaklingur býr við góð lífskjör og koma ábendingum til viðkomandi um það sem betur mætti fara í samráði við hinn fatlaða einstakling.
    3. Aðgangur að upplýsingum um fjármál. Greiði fatlaður einstaklingur gjöld í sameiginlega sjóði, til dæmis í hússjóð eða vegna sameiginlegs heimilishalds með öðrum, skal persónulegur talsmaður með samþykki hins fatlaða einstaklings eiga rétt til aðgangs að öllum upplýsingum um meðferð fjármuna úr þeim sjóðum í samræmi við samkomulag skv. 1. mgr. 7. gr. Í því skyni á talsmaður rétt til setu á húsfundum og öðrum slíkum fundum.
    4. [Aðstoð við ráðstöfun fjármuna vegna daglegra útgjalda. Persónulegum talsmanni er heimilt, á grundvelli samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr., að sjá um greiðslu daglegra útgjalda fyrir einstakling sem hann aðstoðar enda sé greiðslum ráðstafað af sérgreindum reikningum fyrir þess háttar útgjöld. Með viðauka við samkomulagið má veita persónulegum talsmanni heimild til þess að fá nauðsynlegan skoðunaraðgang að sérgreindum reikningum og greiða tilteknar, reglulegar kröfur í heimabanka þess einstaklings sem nýtur aðstoðar. Heimild til handa persónulegum talsmanni getur einnig tekið til þess að stofna til greiðsluþjónustu fyrir hönd einstaklings hjá viðskiptabanka hans um sömu reikninga. Persónulegum talsmanni er hins vegar óheimilt að stofna til fjárhagsskuldbindinga fyrir hönd þess sem hann aðstoðar nema sá einstaklingur hafi veitt honum skriflegt umboð til þess. Hafi fötluðum einstaklingi verið skipaður ráðsmaður á grundvelli lögræðislaga tekur umboð persónulegs talsmanns ekki til þeirra eigna og fjármuna sem ráðsmaður hefur umsjón með.] 1)
Ráðherra skal setja reglugerð 2) um persónulega talsmenn fatlaðs fólks þar sem kveðið verður nánar á um störf þeirra, m.a. um fræðslu þeirra, form samkomulags skv. 1. mgr. 7. gr. og endurgreiðslu kostnaðar skv. 2. mgr. 7. gr. [Ráðherra skal í reglugerð kveða á um skrá sem sýslumanni ber að halda um persónulega talsmenn og framkvæmd sýslumanns við staðfestingu samkomulags og eftirlit með samkomulaginu. Ráðherra er í reglugerð heimilt, að höfðu samráði við þann ráðherra sem fer með málefni sýslumanna, að ákveða að þau verkefni sem sýslumönnum eru falin í lögum þessum verði á hendi eins sýslumanns.] 3)
    1)L. 83/2024, 4. gr. 2)Rg. 972/2012. 3)L. 88/2024, 12. gr.

[V. kafli. Ráðstafanir til að draga úr nauðung í þjónustu við fatlað fólk.]1)
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[10. gr. Bann við fjarvöktun og beitingu nauðungar.
Öll beiting nauðungar í samskiptum við fatlað fólk er bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr. eða um sé að ræða neyðartilvik skv. 13. gr. Fjarvöktun á heimilum fatlaðs fólks er bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr.
Ákvæði þessa kafla taka til allra þeirra sem veita fötluðu fólki þjónustu á heimilum þess og í daglegu lífi.
Þjónustuaðilum er skylt að fræða þá sem vinna með fötluðu fólki um hvað nauðung sé og til hvaða aðgerða megi grípa til þess að koma í veg fyrir að beita þurfi nauðung.] 1)
    1)L. 59/2012, 2. gr., sbr. einnig brbákv. í s.l.
[11. gr. Skilgreiningar.
Nauðung samkvæmt lögum þessum er athöfn sem skerðir sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og fer fram gegn vilja hans eða þrengir svo að sjálfsákvörðunarrétti hans að telja verði það nauðung þótt hann hreyfi ekki mótmælum.
Til nauðungar telst meðal annars:
    a. Líkamleg valdbeiting, til dæmis í því skyni að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur skaði sjálfan sig eða aðra, eða valdi stórfelldu tjóni á eigum sínum eða annarra.
    b. Húsnæði sem tilheyrir fötluðum einstaklingi er læst.
    c. Fatlaður einstaklingur er læstur inni eða ferðafrelsi hans skert með öðrum hætti.
    d. Fatlaður einstaklingur er fluttur milli staða gegn vilja sínum.
    e. Aðgangur fatlaðs einstaklings að eigum sínum er takmarkaður eða þær fjarlægðar gegn vilja hans.
    f. Einstaklingur er þvingaður til athafna, svo sem til að taka lyf eða nota hjálpartæki.
    g. Valdi eða þvingun er beitt við athafnir daglegs lífs.
Fjarvöktun í skilningi laga þessara er rafræn vöktun með myndavél eða hljóðnema.] 1)
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[12. gr. Undanþágur.
Í sérstökum og einstaklingsbundnum tilvikum er heimilt að víkja frá banni 1. mgr. 10. gr. að fengnu leyfi undanþágunefndar skv. 15. gr. enda sé sýnt fram á að tilgangur nauðungar eða fjarvöktunar sé eftirfarandi:
    1. Að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.
    2. Að uppfylla grunnþarfir viðkomandi einstaklings, svo sem varðandi mat, heilbrigði og hreinlæti, eða til þess að draga úr hömluleysi sem af fötlun kann að leiða.
Þegar þjónustuaðili, forstöðumaður eða annar sem ber ábyrgð á þjónustu við fatlaðan einstakling þarf að bregðast við aðstæðum þannig að til greina komi að beita þurfi viðkomandi einstakling nauðung í skilningi laganna skal hann leita til sérfræðiteymis skv. 14. gr.
Fjarvöktun skal jafnframt uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og [vinnslu] 1) persónuupplýsinga.] 2)
    1)L. 90/2018, 54. gr. 2)L. 59/2012, 2. gr.
[13. gr. Neyðartilvik.
Sé nauðsynlegt að grípa inn í atburðarás til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum er heimilt að beita nauðung án undangenginnar ákvörðunar skv. 18. gr. Tafarlaust skal látið af nauðung þegar hættu hefur verið afstýrt eða ástand er liðið hjá. Þjónustuaðilar skulu skrá öll slík tilvik þar sem meðal annars skal gerð grein fyrir tilefni þess að nauðung var beitt, hvers eðlis hún var og hvaða hagsmunir voru í húfi. Þjónustuaðilar skulu senda atvikalýsingu vegna hvers tilviks til sérfræðiteymis skv. 14. gr. innan viku frá því að nauðung var beitt.] 1)
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[14. gr. Sérfræðiteymi.
Ráðherra skipar allt að sjö einstaklinga til fjögurra ára í senn í sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar. Hann skipar formann úr hópi þeirra. Sérfræðiteymið skal skipað einstaklingum með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks og þekkingu og reynslu af aðferðum til að koma í veg fyrir beitingu nauðungar. Gert er ráð fyrir að a.m.k. þrír fulltrúar fjalli um hvert mál.
Hlutverk sérfræðiteymisins er eftirfarandi:
    1. Að veita þjónustuaðilum og forstöðumönnum ráðgjöf, meðal annars um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar.
    2. Að veita umsögn um beiðnir um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar og um undanþágur frá banni við fjarvöktun.
    3. Að taka við tilkynningum um beitingu nauðungar samkvæmt ákvæðum 13. gr. og skýrslum um beitingu nauðungar og fjarvöktun á grundvelli undanþágu og halda skrá um beitingu nauðungar. Um meðferð og varðveislu skrárinnar og gagna sem fengin eru með fjarvöktun fer eftir lögum um persónuvernd og [vinnslu] 1) persónuupplýsinga. Ef ljóst er af atvikaskráningu varðandi tiltekinn einstakling að aðgerðir þær sem fengin hefur verið undanþága fyrir séu ekki til þess fallnar að ná markmiði því sem stefnt var að getur teymið lagt til við undanþágunefnd að undanþágan verði felld úr gildi.
Kostnaður vegna teymisins greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra setur nánari reglur um skipan og starfshætti sérfræðiteymisins með reglugerð. 2)] 3)
    1)L. 90/2018, 54. gr. 2)Rg. 970/2012, sbr. 1254/2015 og 1263/2015. 3)L. 59/2012, 2. gr.
[15. gr. Nefnd um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.
Ráðherra skipar þriggja manna undanþágunefnd og formann úr hópi þeirra til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu búa yfir sérþekkingu á mannréttindamálum, þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd laga á því sviði. Varamenn skulu vera jafnmargir og uppfylla sömu skilyrði og aðalmenn.
Hlutverk nefndarinnar er að fjalla um beiðnir þjónustuaðila um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og banni við fjarvöktun og taka ákvörðun um hvort undanþága verði veitt.
Felist í beiðni ráðagerð um verulega og viðvarandi skerðingu á ferðafrelsi einstaklings þannig að hann geti ekki farið frjáls ferða sinna innan heimilis eða út af því ber nefndinni að vísa beiðninni til dómstóla. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum 9.–17. gr. lögræðislaga eftir því sem við á. Heimild til takmörkunar á ferðafrelsi einstaklings skal aðeins veitt sé sýnt fram á að hætta sé á því að viðkomandi valdi sjálfum sér eða öðrum verulegu líkams- eða eignatjóni sé ekki gripið til takmarkana á ferðafrelsi hans. Úrskurður dómara samkvæmt þessari grein sætir kæru til [Landsréttar]. 1) Um málskot fer samkvæmt lögum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum.
[Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.] 1)
Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra setur nánari reglur um starfshætti nefndarinnar með reglugerð. 2)] 3)
    1)L. 117/2016, 88. gr. 2)Rg. 971/2012. 3)L. 59/2012, 2. gr.
[16. gr. Beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.
Þjónustuaðili skal senda undanþágunefnd skv. 15. gr. skriflega beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar og undanþágu frá banni við fjarvöktun. Þegar um sjálfráða einstakling er að ræða ber [þjónustuaðila] 1) að sjá til þess að honum sé leiðbeint um rétt sinn til að velja sér persónulegan talsmann.
Beiðnin skal rituð á þar til gert eyðublað sem undanþágunefndin lætur í té. Í beiðninni skal meðal annars koma fram:
    a. Hver beri faglega ábyrgð á framkvæmd nauðungar.
    b. Lýsing á þeim aðstæðum sem kalla á beitingu nauðungar og rökstuðningur fyrir beitingu hennar.
    c. Nauðsynlegar upplýsingar um heilsu viðkomandi.
    d. Hvort leitað hafi verið eftir afstöðu viðkomandi og hver hún sé.
    e. Staðfesting á að leitað hafi verið eftir afstöðu lögráðamanns eða persónulegs talsmanns viðkomandi. Hafi viðkomandi ekki valið sér persónulegan talsmann skal liggja fyrir að honum hafi verið leiðbeint um rétt sinn í þeim efnum.
    f. Umsögn sérfræðiteymis skv. 14. gr.
    g. Upplýsingar um fjölda starfsmanna, menntun þeirra og þjálfun.
    h. Hvernig staðið verði að skráningu og innra eftirliti.
Ef um barn er að ræða skal auk þess liggja fyrir upplýst samþykki forsjáraðila fyrir beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar.] 2)
    1)L. 88/2024, 12. gr. 2)L. 59/2012, 2. gr.
[17. gr. Málsmeðferð.
Undanþágunefnd skal taka beiðni til meðferðar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðni berst henni. Telji nefndin þörf á að afla frekari gagna skal það gert án tafar og ákvörðun tekin svo fljótt sem auðið er. Gefa skal hinum fatlaða, lögráðamanni hans, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda eftir atvikum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina áður en hún tekur ákvörðun í málinu.
Við afgreiðslu beiðna skal nefndin meðal annars líta til eftirfarandi atriða auk skilyrða 12. gr.:
    1. Hvort leitað hafi verið allra annarra leiða sem ekki fela í sér nauðung.
    2. Menntunar og reynslu þeirra sem bera faglega ábyrgð á framkvæmd nauðungar.
    3. Hvort nauðung gagnvart hinum fatlaða geti komið niður á öðrum einstaklingum sem búa á sama heimili.
    4. Að nauðung sú sem sótt er um gangi ekki lengra en nauðsynlegt telst til þess að tilgangi hennar verði náð.] 1)
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[18. gr. Form og efni ákvörðunar.
Fallist undanþágunefnd á beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar ber henni að kynna ákvörðun sína hinum fatlaða einstaklingi, lögráðamanni hans, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda og leiðbeina þeim um rétt viðkomandi til að bera málið undir dómstóla. Jafnframt skal tilkynna … 1) [Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála] 2) um ákvörðun nefndarinnar.
Ákvörðunin skal vera rökstudd og í henni skal greina með skýrum hætti til hvers konar aðgerða hún tekur og kveðið á um gildistíma hennar. Þar skal einnig greina skilyrði þau sem sett eru fyrir beitingu nauðungarinnar, svo sem hvernig skuli staðið að henni, hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanna sem henni beita og annað sem nefndin telur mikilvægt. Sé veitt undanþága til líkamlegrar valdbeitingar skal það gert að skilyrði að viðkomandi starfsmenn hafi sótt námskeið um líkamlega valdbeitingu.
Heimildin skal vera tímabundin og aldrei veitt til lengri tíma en nauðsynlegt er, þó lengst til tólf mánaða í senn.
Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds. Að öðru leyti fer um málsmeðferð eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, þ.m.t. endurupptöku vegna verulega breyttra atvika. Heimilt er að bera ákvörðun nefndarinnar undir héraðsdómara í þeirri þinghá þar sem viðkomandi á lögheimili og skal hann úrskurða í málinu innan viku frá því að kæra berst honum. Úrskurður dómara samkvæmt þessari grein sætir kæru til [Landsréttar]. 3) Um málskot fer samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum. Kæra samkvæmt þessari grein frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.
[Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.] 3)] 4)
    1)L. 88/2024, 12. gr. 2)L. 88/2021, 25. gr. 3)L. 117/2016, 89. gr. 4)L. 59/2012, 2. gr.
[19. gr. Skráning.
Þjónustuaðilar skulu halda skrá um öll atvik þar sem einstaklingur er beittur nauðung, hvort sem henni er beitt á grundvelli undanþágu eða í neyðartilvikum skv. 13. gr. Sama á við um fjarvöktun.
Í skráningunni skal greina hvernig nauðungin eða fjarvöktunin var framkvæmd, hversu lengi hún stóð yfir, hverjir önnuðust framkvæmd hennar og önnur atriði sem þýðingu hafa, svo sem hvort einhver meiðsl hafi orðið eða eignatjón af hennar völdum.
Þjónustuaðilar skulu mánaðarlega senda sérfræðiteymi skv. 14. gr. skýrslu um beitingu nauðungar eða fjarvöktun á grundvelli undanþágu. Upplýsingar um beitingu nauðungar í neyðartilvikum skulu sendar sérfræðiteymi innan viku frá atviki.] 1)
    1)L. 59/2012, 2. gr.

[VI. kafli.]1) Ýmis ákvæði.
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[20. gr.]1) Þagnarskylda.
[Á persónulegum talsmönnum fatlaðs fólks hvílir þagnarskylda skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Um þagnarskyldu réttindagæslumanna fatlaðs fólks gildir 10. gr. laga um Mannréttindastofnun Íslands.] 2)
    1)L. 59/2012, 2. gr. 2)L. 88/2024, 12. gr.
[21. gr.]1) Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
    1)L. 59/2012, 2. gr.
[22. gr.]1) Breyting á öðrum lögum. …
    1)L. 59/2012, 2. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. um ráðningu réttindagæslumanna fatlaðs fólks skulu trúnaðarmenn sem skipaðir eru á grundvelli 37. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 172/2011, um trúnaðarmenn fatlaðs fólks, starfa áfram út skipunartíma sinn sem réttindagæslumenn fatlaðs fólks en að honum loknum skal ráða réttindagæslumenn í samræmi við 4. gr.
II.
Ráðherra skal eigi síðar en 1. nóvember 2011 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem m.a. eru lögð til ákvæði um nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk. Frumvarpið skal ráðherra láta vinna í samstarfi við [ráðuneyti mannréttindamála]. 1)
    1)L. 126/2011, 549. gr.
III.
Ráðherra skal þegar við samþykkt laga þessara skipa starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag réttindagæslu fyrir fatlað fólk með það fyrir augum að farið sé með réttindagæsluna sem mannréttindamál en ekki velferðarmál eða félagslegt málefni. Skal hópurinn leitast við að tryggja skilvirka, öfluga og framsækna leið til að sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Við endurskoðunina skal taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Meðal þess sem starfshópurinn skal skoða eru möguleikar þess að færa verkefnið til ráðuneytis mannréttindamála, stofnun þjóðbundinnar mannréttindastofnunar til að sinna verkefninu eða að veita Mannréttindaskrifstofu Íslands lögbundið hlutverk til að sinna verkefninu. Skal hópurinn líta sérstaklega til Parísarreglna Sameinuðu þjóðanna í þessu samhengi.
Þá skoði starfshópurinn möguleika á samnýtingu sérþekkingar með því að færa alla réttindavernd og réttindagæslu annarra hópa til sama aðila.
Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum [ráðuneytisins og ráðuneytis mannréttindamála], 1) fjölbreyttum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Auk þess verði leitað til mannréttindasérfræðinga og sérfræðinga á sviði réttindagæslu, réttindaverndar og fötlunarfræða.
Starfshópurinn skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en 31. desember 2011 og skila skýrslu til ráðherra með tillögum að lagabreytingum sem ráðherra skal kynna fyrir Alþingi.
    1)L. 126/2011, 549. gr.
Þú ert hér: Forsíða > Lagasafn > Lög

Lagasafn

  • Kaflar lagasafns
  • Lög samþykkt á Alþingi
  • Brottfallin lög
  • Nýlega samþykkt lög
  • Um lagasafn
  • Leiðbeiningar
  • Hvernig á að tengja í lög?
  • Zip-skrá af lagasafni

  • Þingfundir og mál
    • Tilkynningar
    • Þingmálalistar
      • Laga­frumvörp
      • Þings­ályktunar­tillögur
      • Fyrirspurnir
      • Skýrslur, álit og beiðnir
      • Sérstakar umræður
      • Staða mála
      • Þingmál eftir efnis­flokkum
      • Samantektir um þingmál
    • Leit að þingmálum
      • Leit í málaskrám
      • Ítarleit að þingskjölum
      • Einföld orðaleit í skjala­texta
      • Orðaleit í umsögnum
      • Atkvæðagreiðslur
      • Efnisyfirlit
    • Þingfundir og ræður
      • Fundar­gerðir og upp­tökur
      • Dagskrá þingfundar
      • Nýyfirlesnar ræður
      • Einföld orðaleit í ræðum
      • Ítarleit í ræðum
      • Ræður eftir þingum
      • Reglur um ræðutíma
      • Starfs­áætlun Alþingis
      • Mælendaskrá
    • Yfirlit og úttektir
      • Þingsköp
      • Alþingistíðindi
      • Alþingismál 1845-1913
      • Þingmálaskrá ríkisstjórnar
      • Breytingar á stjórnarskrá frá 1944
      • Leiðbeiningar um þingskjöl
      • Efni um stjórnarskrármál
      • Vantrauststillögur
      • Umsókn um aðild að ESB
      • Efni um Icesave
      • Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög
      • Úttektir rannsókna- og upplýsingaþjónustu
    • Viltu senda umsögn?
    • Lög samþykkt á Alþingi
    • Nýjar þingsályktanir
  • Þingmenn
    • Alþingismenn
      • Alþingismenn
      • Sitjandi aðal- og vara­þing­menn
      • Netföng og símanúmer
      • Heimasíður þingmanna
      • Varamenn sem sitja á Alþingi
      • Varamenn sem hafa tekið sæti
      • Sætaskipun þingmanna
      • Aðstoðarmenn
      • Mögulegir varaþingmenn
    • Þingflokkar
      • Um þingflokka
      • Formenn þingflokka
      • Flokkur fólksins
      • Framsóknarflokkur
      • Miðflokkurinn
      • Samfylkingin
      • Sjálfstæðisflokkur
      • Viðreisn
      • Utan þingflokka
      • Starfsfólk þingflokka
      • Fyrri þingflokkar
    • Kjördæmi
      • Um kjördæmi
      • Reykjavík norður
      • Reykjavík suður
      • Suðvesturkjördæmi
      • Suðurkjördæmi
      • Norðausturkjördæmi
      • Norðvesturkjördæmi
    • Forsetar Alþingis
      • Forseti Alþingis
      • Forsætisnefnd - varaforsetar
      • Forsetatal
    • Ráðherrar - ríkisstjórn
      • Ráðherrar - ríkisstjórn
      • Ráðherrar og ráðuneyti frá 1904
      • Ráðherrar frá 1904
      • Lengstur starfs­aldur í ríkis­stjórn
    • Sögulegur fróðleikur
      • Elstir manna á Alþingi
      • Formenn fastanefnda Alþingis
      • Fulltrúar á Þjóðfundinum 1851
      • Kjörnir fulltrúar sem tóku aldrei sæti á Alþingi
      • Konungsfulltrúar
      • Landshöfðingjar
      • Lengstur starfs­aldur þing­manna á Alþingi
      • Skrifstofustjórar Alþingis
      • Yngstir kjörinna alþingismanna
      • Yngstu vara­menn á Alþingi
      • Fyrsta þing þingmanna
    • Hagsmunaskrá og hátterni
      • Um skráningu hagsmuna
      • Hagsmunaskrá
      • Siðareglur
      • Brot á siðareglum
      • Viðbragðsáætlun gegn einelti og áreitni þingmanna
      • Trúnaðarmenn þingflokka
    • Alþingismannatal
      • Kosningarréttur og konur á Alþingi
      • Æviágrip þingmanna frá 1845
      • Leit í alþingismannatali
      • Ýmsar skammstafanir
      • Félag fyrrverandi alþingismanna
      • Raddsýnishorn
    • Starfskjör alþingismanna
      • Laun og kostnaðargreiðslur þingmanna
      • Starfskjör þingmanna
      • Þingfararkaup - laun þingmanna
      • Þingfararkostnaður
      • Árnessjóðurinn - orlofssjóður
      • Ýmis eyðublöð
      • Aðstoðarfólk þingmanna
    • Þingtímabil
      • Númer löggjafar­þinga og tímabil
      • Kjördagar
      • Þingrof
      • Þing­setu­tími - númer ráð­gjafar­þinga 1845-1873
      • Tími frá alþingiskosningum til stjórnarskipta frá 1946
    • Tilkynningar
    • Alþingiskosningar
      • Almennar upplýsingar
      • Kosningar og kosningaúrslit
  • Nefndir
    • Dagskrá nefndarfunda
    • Viltu senda umsögn?
      • Leiðbeiningar um umsagnir um þingmál
      • RSS-áskrift að málum í umsagnarferli
    • Tilkynningar
    • Fastanefndir
      • Allsherjar- og menntamálanefnd
      • Atvinnuveganefnd
      • Efnahags- og viðskiptanefnd
      • Fjárlaganefnd
      • Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
      • Umhverfis- og samgöngunefnd
      • Utanríkismálanefnd
      • Velferðarnefnd
    • Aðrar nefndir
      • Alþjóðanefndir
      • Forsætisnefnd
      • Framtíðarnefnd
      • Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga
      • Kjörbréfanefnd
      • Sérnefndir
      • Þingskapanefnd
      • Stjórnir, nefndir og ráð kosin af Alþingi
      • Nefndir skipaðar af forseta og forsætisnefnd Alþingis
      • Endurskoðun kosningalaga
      • Sérnefnd til að íhuga viðbrögð Alþingis við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 16. apríl 2024 um alþingiskosningarnar í Norðvesturkjördæmi 25. september 2021
    • Nefndastörf
      • Starfsreglur fastanefnda Alþingis
      • Störf fastanefnda
      • Reglur um meðferð EES-mála
      • Fundargerðir nefnda
      • Upptökur af opnum fundum nefnda
      • Fundartímar fastanefnda
      • Skipan nefnda
      • Sögulegt yfirlit
      • Þingmál til umfjöllunar í þingnefndum
      • EES mál
      • Önnur mál nefnda
    • Rannsóknir
      • Rannsóknarnefndir Alþingis
      • Íbúðalánasjóður
      • Sparisjóðir
      • Fall íslensku bankanna
      • Greinar­gerð um rannsóknar­nefndir
      • Saksóknarnefnd og saksóknari Alþingis
    • Leitarvalmyndir
      • Orðaleit í erindum og umsögnum
      • Orðaleit í fundargerðum nefnda
      • Leit að skipan í nefndum
    • Erindi og umsagnir
      • Leiðbeiningar um ritun umsagna
      • Erindi
      • Viðtakendur umsagnabeiðna
      • Sendendur erinda
  • Alþjóðastarf
    • Íslandsdeildir
      • Alþjóða­þingmanna­sambandið
      • Evrópuráðs­þingið
      • Þingmanna­nefndir EFTA og EES
      • NATO-þingið
      • Norðurlandaráð
      • Vestnorræna ráðið
      • Þingmanna­ráðstefnan um norðurskauts­mál
      • Þing Öryggis- og samvinnu­stofnunar Evrópu
    • Tilkynningar
    • Yfirlit og starfsreglur
      • Markmið alþjóðastarfsins
      • Þátttaka í alþjóðastarfi
      • Frásagnir af alþjóðastarfi
      • Starfsreglur
      • Yfirlit yfir Íslands­deildir
      • Sögulegt yfirlit
    • Annað alþjóðastarf
      • Alþjóðastarf forseta Alþingis
      • Annað alþjóðastarf sem heyrir undir forseta Alþingis
      • Sameiginleg þingmanna­nefnd Íslands og Evrópu­sambandsins
  • Lagasafn
    • Kaflar lagasafns
    • Lög samþykkt á Alþingi
    • Brottfallin lög
      • 1990-1995
    • Nýlega samþykkt lög
    • Um lagasafn
    • Leiðbeiningar
    • Hvernig á að tengja í lög?
    • Zip-skrá af lagasafni
  • Ályktanir Alþingis
    • Ályktanir eftir efnisflokkum
    • Skýrslur vegna ályktana
  • Um Alþingi
    • Skrifstofa Alþingis
      • Skipurit og hlutverk
      • Netföng og símanúmer
      • Mannauðsmál
      • Laus störf
      • Rekstraryfirlit
      • Jafnlaunavottun
    • Upplýsingar um Alþingi
      • Um hlutverk Alþingis
      • Hvernig getur þú haft áhrif?
      • Þingsköp
      • Reglur settar af forsætis­nefnd
      • Upplýs­ingar um þing­störfin
      • Áskrift að efni á vef Alþingis
      • Um vef Alþingis
      • Alþingi á samfélagsmiðlum
      • Rannsóknaþjónusta - bókasafn
      • Merki Alþingis og hönnunarstaðall
    • Fræðslu- og kynningarefni
      • Um Alþingis­húsið
      • Nýbygging á Alþingisreit
      • Skólaþing
      • Ungmennavefur
      • Kynning og saga
      • 100 ára fullveldi 2018
      • Alþingi kynningar­bæklingur
      • Háttvirtur þingmaður - handbók
      • Orðskýringar
    • Stofnanir, stjórnir og nefndir
      • Stjórnir, nefndir og ráð kosin af Alþingi
      • Nefndir skipaðar af forseta og forsætisnefnd Alþingis
      • Ríkis­endurskoðun
      • Umboðs­maður Alþingis
      • Jónshús
      • Rannsóknar­nefndir Alþingis
      • Mannréttindastofnun Íslands
    • Útgefið efni
      • Handbækur Alþingis
      • Ársskýrslur Alþingis
      • Skýrsla um eftirlit Alþingis með framkvæmdar­valdinu
      • Skýrsla um traust til Alþingis
      • Með leyfi forseta
    • Heimsóknir í Alþingishúsið
      • Heimsóknir hópa
      • Alþingishús - aðgengi
      • Fjölmiðlafólk í Alþingis­húsinu
      • Útiþrautaleikur um Alþingishúsið

  • Dansk
  • English

Leita á vefnum


  • Veftré
  • Orðskýringar
  • Alþingistíðindi
  • Skólaþing
  • Ungmennavefur

  • Rafrænir reikningar
  • Umsagnagátt
  • Hakið
  • Vefpóstur
  • Þingmannagátt


Skrifstofa Alþingis - Hafa samband, 101 Reykjavík, Sjá á korti , Kt. 420169-3889 ,[email protected]
Sími 563 0500, Skiptiborðið er opið kl. 9–16 mánudaga til föstudaga.

Persónuverndarstefna




Jafnlaunavottun 2022-2025 Jafnvægisvogin 2024 - viðurkenning Félags kvenna í atvinnurekstri


Þetta vefsvæði byggir á Eplica